Hjá mér kostar ökutíminn í kennslubifreið 12.500 kr. Hver tími er að jafnaði 45 mínútur. Akstursmat vegna útgáfu fullnaðarskírteinis eða endurveitingu ökuréttinda er 12.500 á kennslubifreiðinni en 8.500 ef þú ert með eigin bifreið. Sú bifreið þarf að vera með fulla skoðun og í lagi.
Annar kostnaður:
- Ökuskóli 1: 9.900 – 13.500 (Netökuskólar, sjá hér að ofan).
- Ökuskóli 2: 8.900 – 13.500 (Netökuskólar, sjá hér að ofan)
- Ökuskóli 3: 45.000.
- Útgáfa námsheimildar og fyrsta ökuskírteinis: 4.600 (bráðabirgðaskírteini).
- Prófgjald til Frumherja f/bóklegt próf: 4.640.
- Prófgjald til Frumherja f/verklegt próf: 12.580.
Reikna má með að allt ökunámið með öllum kostnaði sé um 280.000 – 300.000 en það fer eftir því hvaða ökuskóli verður fyrir valinu og hversu marga verklega ökutíma þarf að taka.
Hvenær get ég byrjað að læra á bíl?
Þegar einstaklingur er orðinn 16 ára gamall er hægt að hefja ökunám. Byrjað er að hafa samband við ökukennara sem útskýrir hvernig ökunámi er háttað. Því næst er sótt um námsheimild til sýslumanns með því að fylla út umsóknareyðublað um ökuskírteini. Með umsókninni skal fylgja ljósmynd (35*45mm). Þegar sýslumaður hefur veitt námsheimildina, er hún um leið heimild til próftöku og þá er hægt að hefja æfingaakstur hjá ökukennaranum.
Hvenær má ég byrja á æfingaakstri með leiðbeinanda?
Ljúka þarf að lágmarki 10 kennslustundum hjá ökukennara áður en hægt er að byrja æfingaakstur með leiðbeinanda en reynslan er sú að yfirleitt hefst slíkur æfingarakstur eftir ca. 12 kennslustundir. Þar að auki þarf að ljúka ökuskóla 1 (12 kennslustundir) og er kostnaðurinn mismunandi eftir því hvaða ökuskóli er valinn. Flestir kjósa að taka ökuskóla 1 á netinu. Nokkrir netökuskólar eru starfræktir m.a.:
Einnig er hægt að fara á námskeið sem kennt er í stofu ef það hentar betur. Nokkrir ökuskólar bjóða upp á slíka kennslu og mun ég veita frekari upplýsingar og aðstoða við að finna slíkt námskeið þegar að því kemur. Nám í Ökuskóla 1 hefst fljótlega eftir að verkleg kennsla byrjar, yfirleitt eftir 2 – 4 kennslustundir.
Hvað er æfingaakstur með leiðbeinanda?
Æfingaakstur með leiðbeinanda kemur ekki í stað æfingaaksturs með ökukennara heldur sem viðbótaræfing. Í æfingaakstri telst leiðbeinandi vera stjórnandi bifreiðar.
Skilyrði leyfis er að leiðbeinandi sé orðinn 24 ára, hafi í a.m.k. fimm ár haft gilt ökuskírteini fyrir B-flokk og hafi ekki á síðustu tólf mánuðum verið án ökuskírteinis vegna sviptingar ökuréttar eða verið refsað fyrir vítaverða aksturshætti. Leyfið má gefa út til allt að 15 mánaða. Sýslumaður getur afturkallað leyfið, fylgi leiðbeinandi ekki reglum um æfingaakstur eða fullnægi ekki lengur skilyrðum leyfis.
Leiðbeinandi skal hafa leyfið meðferðis við æfingaakstur. Honum er óheimilt að taka endurgjald fyrir að leiðbeina umsækjanda.
Nemandi sem er að læra á beinskiptan bíl má fara í æfingaakstur með leiðbeinanda á sjálfskiptan bíl.
Hvenær er hægt að taka prófin?
Ökuprófið skiptist í þrjá hluta, bóklegt próf, munnlegt próf og verklegt próf.
Bóklega hluta ökuprófsins má taka 2 mánuðum fyrir 17 ára aldurinn en þá þarf að vera búið að ljúka öllum ökuskólum (1,2 og 3) ásamt því að hafa lokið a.m.k. 12 kennslustundumí verklegu námi hjá ökukennara. Ef að ökuskóla 3 hefur ekki verið lokið þarf að vera búið að ljúka a.m.k. 14 kennslustundum hjá ökukennara.
Eftir að ökunemi hefur klárað lágmarkið fyrir kennslustundir í verklegu námi, alls 17 og staðist bóklega hlutann, má taka munnlegt próf og verklegt próf en þó ekki fyrr en 2 vikum fyrir 17 ára afmælið. Munnlega prófið er tekið á sama degi og verklegi hlutinn og er það klárað áður en verklega prófið hefst.
Bóklega prófið er krossapróf þar sem spurt er út í námsefnið sem neminn lærði í ökuskóla og hjá kennaranum. Prófin eru yfirleitt tekin í stofu þar sem nokkrir þreyta prófið í einu. Hægt er að fá aðstoð við töku prófsins s.s. vegna lestrarörðuleika.
Munnlega prófið er þreytt áður en akstur hefst. Það fer fram í bílnum og er m.a. spurt út í gaumljós, virkni stjórntækja og öryggisbúnaðar og viðhald bílsins. Munnlega prófið samanstendur af 5 spurningum.
Í verklega akstursprófinu er ekin ákveðin prófleið. Prófdómari gefur plúsa og mínusa fyrir ákveðin atriði og í lok prófs er reiknaður út stigafjöldinn. Til þess að standast prófið þarf að vera með 80 stig eða meira (12 mínusar eða færri).
Hvað er ökuskírteini til bráðabirgða?
Þegar ökunemi hefur staðist ökuprófið fær hann útgefið bráðabirgðaökuskírteini sem gildir í 3 ár. Þó svo neminn sé kominn með ökuréttindi þá er litið svo á að á gildistíma þess skírteinis sé hann á reynslutíma og að ökunáminu sé ekki formlega lokið fyrr en við útgáfu fullnaðarskírteinis. Hægt er að sækja um fullnaðarskírteini eftir 12 mánuði ef ökuneminn hefur ekki fengið refsipunkt í ökuferilskrá og viðkomandi hefur farið í akstursmat hjá ökukennara.
Hverju má ég aka með B-réttindi?
- Fólksbifreið með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna og með sæti fyrir 8 farþega eða færri, auk ökumanns.
- Sendibifreið með leyfða heildarþyngd 3.500 kg eða minna.
- Fólks- eða sendibifreið með tengdan eftirvagn / tengitæki sem er 750 kg eða minna að leyfðri heildarþyngd.
- Fólks- eða sendibifreið með tengdan eftirvagn / tengitæki sem er meira en 750 kg að leyfðri heildarþyngd enda sé leyfð heildarþyngd beggja ökutækja 3.500 kg eða minna og leyfð heildarþyngd eftirvagnsins/tengitækisins ekki meiri en eigin þyngd dráttartækisins.
- Dráttarvél.
- Vinnuvél (ath, aðeins að keyra hana á milli staða. Það þarf vinnuvélaréttindi til þess að vinna á henni).
- Léttu bifhjóli og torfærutæki, s.s. vélsleða.
Ríkislögreglustjóri heldur úti ökuferilsskrá. Í þá skrá eru færði inn allir þeir pefsipunktar sem ökumenn fá þegar þeir brjóta af sér í umferðinni.
Punktakerfinu er ætlað að reyna að koma í veg fyrir síbrot í umferðinni og veita ökumönnum aðhald.
Handhafar bráðabirgðaskírteinis mega mest fá 6 punkta. Við 7. punkt tekur við tímabundin 3 mánaða svipting. Hjá þeim sem eru handhafar fullnaðarskýrteinis tekur við tímabundin svipting í 3 mánuði þegar 12 punktum er náð.
Áunnir punktar fyrnast á 3 árum.
Athugið að þeir sem eru með fyrsta bráðabirgðaskírteini eru settir í ótímabundið akstursbann þegar 4. punkti er náð. Ekki er hægt að fá ökuskírteinið aftur fyrr en að loknu sérstöku námskeiði.