Fyrsti hluti ökunámsins

Kennsluakstur með ökukennara (verklegt ökunám) er á bilinu 17 – 25 kennslustundir. Bóklegt nám er alls 25 kennslustundir.

Þegar einstaklingur er orðinn 16 ára gamall er hægt að hefja ökunám. Byrjað er að hafa samband við ökukennara sem útskýrir hvernig ökunámi er háttað. Því næst er sótt um námsheimild til sýslumanns með því að fylla út umsóknareyðublað um ökuskírteini. Með umsókninni skal fylgja ljósmynd (35*45mm). Þegar sýslumaður hefur veitt námsheimildina, er hún um leið heimild til próftöku og þá er hægt að hefja kennsluakstur hjá ökukennaranum.

Ljúka þarf að lágmarki 10 kennslustundum hjá ökukennara áður en hægt er að byrja æfingaakstur með leiðbeinanda en reynslan er sú að yfirleitt hefst slíkur æfingarakstur eftir ca. 12 kennslustundir. Þar að auki þarf að ljúka ökuskóla 1 (12 kennslustundir) og er kostnaðurinn mismunandi eftir því hvaða ökuskóli er valinn. Flestir kjósa að taka ökuskóla 1 á netinu. Nokkrir netökuskólar eru starfræktir m.a.:

Einnig er hægt að fara á námskeið sem kennt er í stofu ef það hentar betur. Nokkrir ökuskólar bjóða upp á slíka kennslu og mun ég veita frekari upplýsingar og aðstoða við að finna slíkt námskeið þegar að því kemur. Nám í Ökuskóla 1 hefst fljótlega eftir að verkleg kennsla byrjar, yfirleitt eftir 2 – 4 kennslustundir.

Æfingaakstur með leiðbeinanda

Æfingaakstur með leiðbeinanda kemur ekki í stað æfingaaksturs með ökukennara heldur sem viðbótaræfing. Í æfingaakstri telst leiðbeinandi vera stjórnandi bifreiðar.

Skilyrði leyfis er að leiðbeinandi sé orðinn 24 ára, hafi í a.m.k. fimm ár haft gilt ökuskírteini fyrir B-flokk og hafi ekki á síðustu tólf mánuðum verið án ökuskírteinis vegna sviptingar ökuréttar eða verið refsað fyrir vítaverða aksturshætti. Leyfið má gefa út til allt að 15 mánaða. Sýslumaður getur afturkallað leyfið, fylgi leiðbeinandi ekki reglum um æfingaakstur eða fullnægi ekki lengur skilyrðum leyfis.

Leiðbeinandi skal hafa leyfið meðferðis við æfingaakstur. Honum er óheimilt að taka endurgjald fyrir að leiðbeina umsækjanda.

Nemandi sem er að læra á beinskiptan bíl má fara í æfingaakstur með leiðbeinanda á sjálfskiptan bíl.

Síðari hluti ökunáms og prófin

Um það bil 2 – 3 mánuðum fyrir 17 ára aldurinn halda verklegar kennslustundir áfram hjá ökukennara, en þær þurfa að vera að minnsta kosti 4 talsins. Á sama tíma þarf ökuneminn að ljúka Ökuskóla 2 (10 kennslustundir). Þá þarf hann einnig að sækja nám í Ökuskóla 3 sem telur 2 verklegar kennslustundir sem teljast hlutu af verklegu námi og 3 bóklegar kennslustundir. Bóklegt próf má taka 2 mánuðum fyrir 17 ára aldurinn. Eftir að ökunemi hefur klárað lágmarks kennslustundir í verklegu námi og staðist bóklegt próf sem fram fer hjá Frumherja má hann taka verklegt próf en þó ekki fyrr en 2 vikum fyrir 17 ára afmælið.

Þegar ökunemi hefur staðist próf fær hann útgefið bráðabirgðaökuskírteini sem gildir í 3 ár. Þó svo neminn sé kominn með ökuréttindi þá er litið svo á að á gildistíma þess skírteinis sé hann á reynslutíma og að ökunáminu sé ekki formlega lokið fyrr en við útgáfu fullnaðarskírteinis. Hægt er að sækja um fullnaðarskírteini eftir 12 mánuði ef ökuneminn hefur ekki fengið refsipunkt í ökuferilskrá og viðkomandi hefur farið í akstursmat hjá ökukennara.

Verð fyrir bílprófið

Hjá mér kostar ökutíminn í kennslubifreið 11.500 kr. Hver tími er að jafnaði 45 mínútur. Akstursmat vegna útgáfu fullnaðarskírteinis eða endurveitingu ökuréttinda er 9.500 á kennslubifreiðinni en 8.000 ef þú ert með eigin bifreið. Sú bifreið þarf að vera með fulla skoðun og í lagi.

Annar kostnaður:

  • Ökuskóli 1: 7.900 – 13.500 (Netökuskólar, sjá hér að ofan).
  • Ökuskóli 2: 7.900 – 13.500 (Netökuskólar, sjá hér að ofan)
  • Ökuskóli 3: 44.500.
  • Útgáfa ökuskírteinis: 4.000 (bráðabirgðaskírteini); 8.000 (fullnaðarskírteini).
  • Prófgjald til Frumherja f/bóklegt próf: 4.300.
  • Prófgjald til Frumherja f/verklegt próf: 11.700.

Reikna má með að allt ökunámið með öllum kostnaði sé um 260.000 en það fer eftir því hvaða ökuskóli verður fyrir valinu og hversu marga verklega ökutíma þarf að taka.